Erlent

Einnar íslenskrar konu enn leitað

Einnar íslenskrar konu, Ritu Daudin, er saknað eftir að fellibylurinn Katrín reið yfir New Orleans og nágrenni fyrir rúmri viku. Rita er 67 ára gömul og býr í hverfinu Metairie í New Orleans. Hilmar Skagfield, ræðismaður Íslendinga í Tallahassee, segir lögreglumenn leita Ritu en úthverfið þar sem hún búi sé á kafi í vatni eftir fellibylinn. Lilja Aðalbjörg Ólafsdóttir Hansch sem leitað var frá fyrsta degi fannst heil á húfi á heimili sínu í Gulfport á sunnudagsmorgun. Karly Jóna Kristjónsdóttur Legere, kölluð Systa, eiginmaður hennar og tvær uppkomnar dætur komu svo í leitirnar um miðjan dag í gær. Þeirra hafði verið leitað frá því í fyrradag. Halldór Gunnarsson, sem býr í Long Beach í Mississippi, bankaði fyrst upp á hjá Lilju: "Henni leið vel. Ég spurði hvort hana vantaði eitthvað en hún kvað svo ekki vera." Halldór hóf leit að Lilju eftir að mágur hennar hafði samband við hann og bað um aðstoð við leitina. Í kjölfarið hafði utanríkisráðuneytið samband við Halldór og bað hann að leita að Systu. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í Diamond Head, um 75 kílómetra norðaustur af New Orleans sem fór illa í óveðrinu. Þangað hélt Halldór í gær. "Miklar skemmdir urðu á bílskúrnum við heimili Systu en húsið stóð. Henni leið mjög vel og var að leggja sig þegar ég fann hana. Hvorki amaði neitt að henni né að fjölskyldu hennar," sagði Halldór sem hafði ekki sofið í tvo sólarhringa vegna leitarinnar að íslensku konunum. Halldór mun ekki leita að Ritu: "Það er miklu erfiðara fyrir mig að komast til New Orleans því búið er að loka þjóðveginum. Ég hef því aðeins getað leitað hér í kring. Ég myndi þó keyra til Kaliforníu og leita að fólki þar, ef þyrfti og ég gæti, því það er sannarlega þess virði að geta fært ættingjum svona gleðifréttir." Systkini Lilju, Jakob og Helga, voru að vonum ánægð að heyra að systir þeirra væri óhult. "Þetta er sannarlega mikill léttir," segir Jakob sem hafði ráðgert að halda utan í dag og leita sjálfur að henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×