Innlent

Barnaníðings leitað í Smáralind

Lögreglan í Kópavogi rannsakar hvort barnaníðingur reyni að lokka til sín unga drengi í gegnum símasjálfsala í Smáralindinni. Málið kom upp á föstudag og vinna öryggisverðir verslunarmiðstöðvarinnar með lögreglu að málinu. Lögreglan rannsakar hvort rétt sé að maður noti símasjálfsala til að lokka til sín unga drengi. Í DV í dag er viðtal við konu sem veitti því eftirtekt að hringt var í símasjálfsalana og þegar fullorðnir svöruðu virtist sem enginn væri á línunni. Aftur á móti þegar börn svörðu leiddi það til samtals. Konan ræddi við börnin og kom þá í ljós að þeim yrði boðið sælgæti kæmu þau út í bíl. Björgvin Björgvinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópvogi staðfestir að málið sé í rannsókn hjá þeim og segir þetta hafa komið upp síðastliðinn föstudag þegar öryggisverðir Í Smáralind höfðu samband við lögregluna og sögðu að verið væri að nota sjálfsala til þess að lokka pilta út í bíl. Eftir þessar upplýsingar hóf lögreglan eftirgrennslan og rannsókn og verið er að afla upplýsinga um málið. Björgvin segir að ábendingar um nokkur bílnúmer í sambandi við rannsókn málsins hafi ekki borið árangur, þar sem númerin hafi verið röng. Þá minnir hann á að alltaf geti verið um gabb að ræða en það þurfi að sjálfsögðu að athuga. Hann sagði jafnframt að að allar ábendingar af þessu tagi væru teknar alvarlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×