Innlent

Lækkanir að mestu gengnar til baka

MYND/Sigurður Jökull
Verðlækkanir á matvöru á fyrri hluta ársins hafa að stóru hluta gengið til baka, að því er fram kemur á heimasíðu Alþýðusambands Íslands. Þar kemur fram að þær verslanir sem mest lækkuðu vöruverð hjá sér í verðstríði sem geisaði fyrr á árinu hafi nú dregið stóran hluta lækkananna til baka. ASÍ segir þetta koma fram í hækkun á matar- og drykkjarlið vísitölu neysluverðs í síðustu fjórum mælingum Hagstofunnar, og að búast megi við enn frekari hækkun við næstu birtingu vístölunnar þann 12. október. Þá segir á vef ASÍ að þegar könnun verðlagseftirlits sambandsins frá 4. október er borin saman við könnun sem gerð var þann 2. júlí megi sjá að vöruverð hefur hækkað nokkuð í verslunum Bónus, Krónunnar, Nettó og Samkaupa en lækkað í verslunum Hagkaupa, Nóatúns og í Fjarðarkaupum. Samfara þessu hafi dregið úr þeim mikla mun sem myndast hafi á vöruverði milli einstakra verslana. Munur á hæsta og lægsta verði vörukörunnar var í könnuninni í júlí rúmlega 91 prósent, en er nú í október talsvert lægra, eða 65 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×