Innlent

Hans stendur við umsóknina

Lögmaður Hans Markúsar Hafsteinssonar, sem nýverið var veitt lausn úr embætti sóknarprests Garðasóknar, segir að Hans muni una niðurstöðu úrskurðarnefndar sem lagði til að hann yrði færður til í starfi. Hans mun samt standa við umsókn sína um sitt gamla embætti í Garðasókn. Biskupstofa sendi í gær frá sér fréttatilkynningu þar sem tilteknir voru sjö prestar sem sótt höfðu um stöðu sóknarprests í Garðakirkju. Embættið losnaði sem kunnugt er þegar Hans Markúsi var veitt lausn eftir átök í sókninni síðastliðið sumar. Átök sóknarprestsins og sóknarnefndar enduðu með því að úrskurðarnefnd kirkjunnar lagði til að Hans yrði færður til í starfi og gerður að héraðspresti í Reykajvíkurprófastsdæmi vestur. Það vakti athygli í gær að Hans var einn af sjö umsækjendum um sitt gamla starf í Garðasókn. Þá varðist hann allra frétta af málinu, að öðru leyti en því að hann staðfesti umsókn sína, en fékkst ekki til að svara því af eða á hvort hann hyggðist jafnhliða una niðurstöðu um tilfærslu í embætti. Í gærkvöld barst svo önnur tilkynning frá Biskupstofu þar sem fram kom að Hans hefði samþykkt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og hygðist taka embætti héraðsprestsins. Að sögn Sveins Andra Sveinssonar, lögmanns séra Hans, er þó ekki þar með sagt að umsókn Hans Markúsar í sitt gamla embætti í Garðakirkju sé dregin til baka. Sveinn Andri segir umbjóðanda sinn ætla að halda umsókn sinni til streitu þrátt fyrir að taka embætti héraðsprests. Hans mun því ætla að láta á það reyna hvort valnefnd, skipuð fimm fyrrverandi sóknarbörnum hans og Skálholtsbiskupi, muni bjóða honum starfið að nýju. Hans Markús stendur nú í málaferlum vegna úrskurðar um tilfærslu hans, tilfærslu sem hann sjálfur hefur gengist við en jafnhliða sótt um sitt gamla starf. Ekki hefur náðst í Hans sjálfan í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×