Erlent

Tyrkir og Svisslendingar deila

Tyrkir hafa hætt við að bjóða Joseph Deiss, ráðherra efnahagsmála í Sviss, í opinbera heimsókn til Tyrklands, en missætti hefur lengi ríkt milli landanna tveggja. Opinber ástæða þess að hætt var við boðið var sú að ekki tókst að skipuleggja heimsóknina svo hentaði tímaáætlun beggja, að sögn talsmanns ráðherrans. Hann sagði að raunverulega ástæðan væri misklíð landanna vegna morða Tyrkja á Armenum á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar, sem Svisslendingar og sumar aðrar þjóðir, hafa líkt við þjóðarmorð. Tyrkir neita því staðfastlega að hafa framið þjóðarmorð. Tyrkir reiddust Svisslendingum í síðasta mánuði þegar Svisslendingar fyrirskipuðu rannsókn á ummælum tyrkneska stjórnmálamannsins Dogu Perincek sem hann lét falla á meðan hann var í heimsókn í Sviss. Þá neitaði hann því alfarið að morðin á Armenunum hefðu verið þjóðarmorð. Perinced var í haldi lögreglu í skamman tíma eftir ummælin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×