Erlent

Réttarhöldin yfir Ocalan óréttlát

Réttarhöldin yfir Kúrdaleiðtoganum Abdullah Ocalan voru óréttlát að mati Mannréttindadómstóls Evrópu sem úrskurðaði í málinu í morgun. Ocalan var dæmdur til dauða fyrir hryðjuverk en þeim dómi var síðar breytt í lífstíðarfangelsi, vegna þrýstings frá Evrópusambandinu. Stjórnvöld í Ankara segjast ætla að gera það sem þau þurfa að gera í kjölfar úrskurðar Mannréttindadómstólsins. Talsmaður stjórnarinnar segir almenning í Tyrklandi ekki þurfa að óttast að Ocalan verði látinn laus og að þjóðin geti treyst því að dómstólar muni fjalla um mál hans á réttan og sanngjarnan hátt. Leiðtoganum er haldið föngnum á eyju, þar sem hann er reyndar eini fanginn. Tyrkir hafa verið að reyna að komast inn í ESB en stefna þeirra í mannréttindamálum hefur gert þeim inngönguna erfiða. Úrskurður Mannréttindadómstólsins er ekki bindandi fyrir tyrknesk stjórnvöld en ljóst að hann skapar ákveðinn vanda fyrir þau, af fyrrgreindum ástæðum. Með úrskurðinum er þrýstingur á tyrknesk stjórnvöld að rétta yfir Ocalan að nýju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×