Innlent

Fundu eiturlyf, snáka og vopn

Tveir rúmlega metra langir snákar lúrðu í sérstökum helli í búri sínu þegar ljósmyndari smellti af þeim mynd í gærmorgun. Fréttablaðið/Heiða
Tveir rúmlega metra langir snákar lúrðu í sérstökum helli í búri sínu þegar ljósmyndari smellti af þeim mynd í gærmorgun. Fréttablaðið/Heiða

Tæplega 300 grömm af fíkniefnum, tvær byssur og tveir lifandi snákar fundust í íbúð á höfuðborgarsvæðinu í fyrrakvöld, þegar öflug sveit lögreglumanna gerði húsleit þar. Tveir menn um þrítugt hafa játað við yfirheyrslur að eiga efnin, byssurnar og snákana og telst málið upplýst.

Þeir báru að efnin hefðu þeir ætlað til eigin nota. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi reyndist megnið af fíkniefnunum vera hass, en talið er að hluti þeirra hafi verið amfetamín. Mennirnir voru handteknir og færðir til yfirheyrslu. Þeim var sleppt að því búnu. þeir voru einir í íbúðinni þegar þeir voru handteknir.

Við húsleitina naut lögreglan í Kópavogi aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra, fíkniefnalögreglumanns frá lögreglunni í Hafnarfirði og fíkniefnaleitarhunds frá Tollgæslunni. Byssurnar sem lögreglan fann í íbúðinni reyndust vera gasknúin skammbyssa og loftknúin skammbyssa, ásamt skotfærum. Hinir handteknu vildu við yfirheyrslur ekki tilgreina hvar þeir hefðu fengið snákana. Þeir sögðu aðeins að þeim hefðu áskotnast þeir.

Ljóst er að dýrunum hefur verið smyglað til landsins, en mennirnir kváðust hafa átt þá í nokkur ár. Þeir voru aflífaðir síðdegis í gær af dýralækni á Keldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×