Innlent

Flúðu eiturgufur og ólykt

Þór Jóhannesson þurfti að flýja með fjölskylduna af Nýlendugötunni.
Þór Jóhannesson þurfti að flýja með fjölskylduna af Nýlendugötunni.

Hjón með fimmtán mánaða barn sem búa við Nýlendugötu gátu ekki þolað lengur við í íbúð sinni þar sem lykt sem kom upp úr skolplögninni var farin að valda þeim heilsutjóni og verulegum óþægindum um síðustu helgi. Starfsmenn fyrirtækisins Hreinsi­bíla voru að fóðra skólplagnir í nálægri götu og spurði Þór þá hverju þetta sætti.

"Þeir sögðust undrandi á því að þetta kæmi til mín þar sem þeir væru ekki að fóðra skólprör fyrir mína götu," segir Þór Jóhannesson, íbúi við Nýlendugötu. Fyrst fundu þau fyrir lyktinni á föstudagsmorgun og seinni part sama dag var konan komin með magapínu og afréðu þau þá að pakka niður og fara með barnið og gista annars staðar yfir helgina. Lyktin beið þeirra svo enn á sunnudagskvöldið og fram á mánudag.

Í síðasta mánuði sögðu tvær fjölskyldur frá því í Fréttablaðinu að þær hefðu þurft að flýja heimili sín vegna lyktar sem kom upp í íbúðum þeirra þegar verið var að fóðra skólplagnir í grenndinni. Fékk þá kona útbrot og önnur sýkingareinkenni og asmasjúklingur var margsinnis hætt kominn.

Lúðvík Gústafsson, deildarstjóri mengunarvarna á umhverfis­sviði, sagði þá að ef slík lykt bærist í hús þýddi það að skolplagnir í húsinu væru ekki í lagi og borgaryfirvöld væru ekki ábyrg fyrir þeim.

Gunnar Svavarsson, verkfræðingur hjá Línuhönnun, sem hefur eftirlit með fóðruninni, tekur í sama streng: "Þetta er pólýester sem er sett í lagnirnar en það er lágmarks leysiefnanotkun í þessu og það tekur efnið ekki nema tvo til fjóra tíma að harðna þannig að mér þykir afar ólíklegt að þessi lykt hafi fundist yfir heila helgi. Ef menn finna mikla lykt af þessu eiga þeir að opna alla glugga og taka því sem ábendingu um að skólplagnirnar í húsinu séu ekki í lagi."

Hann segir að þær kvartanir sem hafi borist vegna þessara framkvæmda séu teljandi á fingrum annarrar handar. Tilkynningar eru bornar í hús áður en hafist er handa við fóðrun í viðkomandi götu. Fjölskylda Þórs fékk enga tilkynningu þar sem framkvæmdirnar fara ekki fram í þeirri götu. Lúðvík segir að til greina komi að endurskoða þetta verklag svo að allt nágrennið viti af framkvæmdunum áður en hafist er handa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×