Innlent

Læknafélagið kærði Jóhann

Læknablaðið neitaði að birta grein eftir Jóhann Tómasson heilsugæslulækni þar sem hann segist færa sönnur á það að lækningaleyfi Kára Stefánssonar sé takmarkað af eiði sem hann hafi gert árið 1977 við þáverandi Landlækni en hafi svo ekki staðið við. Þar með gefur Jóhann til kynna að Kári hafi í raun ekki gilt lækningaleyfi. Fréttablaðið birtir í dag grein Jóhanns ásamt afriti af eiðnum.

"Ég átti frekar von á að Kári Stefánsson myndi kæra mig en hann þorir það ekki því ég get sannað mitt mál. Þá lætur hann Læknafélag Íslands gera það fyrir sig og það gerir það," segir Jóhann.

Læknafélagið kærði málið til Siðanefndar Læknafélags Íslands en svo kærði Kári sjálfur Vilhjálm Rafnsson, þáverandi ritstjóra Læknablaðsins, til sömu nefndar. Vilhjálmur var settur af eftir að hann hafði leyft birtingu á annarri grein eftir Jóhann og þá var bráðabirgðaritnefnd sett á laggirnar. Vilhjálmur vill ekki staðfesta hvort ritstjórnin hafi neitað Jóhanni um birtingu á þeirri grein sem nú birtist í Fréttablaðinu.

Í síðasta tölublaði, sem Vilhjálmur ritstýrði, er Kári beðinn afsökunar á birtingu á fyrri grein Jóhanns. "Það sem ég sé athugavert í þessu máli er að Kári setur þrjár kröfur fram við eigendur Læknablaðsins og þeir eru komnir langleiðina með að verða við þeim öllum," segir Vilhjálmur. "Hann krafðist þess að ég yrði rekinn og það er búið. Hann krafðist þess að hann yrði beðinn afsökunar og það er búið. Hann krafðist þess að grein Jóhanns yrði tekin af vefnum, en bráðbirgðaritstjórnin tók reyndar aðeins tvær setningar úr grein Jóhanns og það eru vinnubrögð sem ég taldi að viðgengjust venjulega ekki í lýðræðisríkjum," segir Vilhjálmur.

Þessar tvær setningar eru svohljóðandi: "Kári hefur skilyrt, takmarkað lækningaleyfi, útgefið til bráðabirgða 10. júní 1977. Önnur lækningaleyfi, sem íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt honum, eru því sennilega ólögleg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×