Innlent

Frumvarp í flýtimeðferð

Fragtflugvél Air Atlanta. Áhyggjur FÍA beinast einnig að því að samkeppnisstaða íslenskra flugfélaga sé ójöfn vegna þess að sum flugfélög eigi þess kost að nýta sér starfsmannaleigur. Þessi umsvif skili sér ekki í sköttum.
Fragtflugvél Air Atlanta. Áhyggjur FÍA beinast einnig að því að samkeppnisstaða íslenskra flugfélaga sé ójöfn vegna þess að sum flugfélög eigi þess kost að nýta sér starfsmannaleigur. Þessi umsvif skili sér ekki í sköttum.

"Okkur þykir frumvarpið vera illa unnið og ekki taka almennilega á þessum málum," segir Halldór Þ. Sigurðsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, og á þar við frumvarp um starfsmannaleigur sem nú bíður afgreiðslu Alþingis.

"Við höfum verið að kvarta yfir því að samkeppnisstaða flugfélaga sé ekki jöfn í ljósi þess að sumir geta ráðið fólk í gegnum áhafnaleigur þar sem þeir skila ekki sköttum af þessari starfssemi til landsins eins og ríkisskattstjóri telur að eigi að gera," segir Halldór. Hann bendir á að leitað hafi verið umsagnar FÍA um frumvarpið en þegar á hólminn var komið hafi þeim verið tilkynnt að of seint væri að gera breytingar á frumvarpinu. "Þetta fær gífurlega flýtimeðferð í gegnum þingið."

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, kveðst geta tekið undir áhyggjur atvinnuflugmanna af þessum málum og að ósekju hefðu línurnar í frumvarpinu mátt vera skýrari. "Þetta varð lendingin. Lengra varð ekki komist í þessari sátt sem reynt var að ná um að keyra þetta í gegn núna," segir Sævar og bætir við: "Aftur á móti eru sjómenn mun betur settir að því leyti að það eru alveg skýrar línur um það hvenær þeir vinna samkvæmt íslensku kjarasamningum. Ef þeir eru um borð í íslensku skipi þá eru þeir á íslenskum kjarasamningum," segir Sævar.

Öðru máli gegnir um sjómenn sem sigla á íslenskum leiguskipum sem ekki eru í reglulegum siglingum til og frá landinu, en yfir þá starfsemi ná ekki íslenskir kjarasamningar, segir Sævar. Þar gildi svipað og um flugáhafnir íslenskra fyrirtækja sem nýti sér starfsmannaleigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×