Innlent

Thelma er maður ársins

Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.

Thelma Ásdísardóttir er maður ársins að mati Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands. Karl gerði hugrekki Thelmu að umtalsefni í predikun í Hallgrímskirkju í gær, á fyrsta degi aðventu. Thelma Ásdísardóttir ætti að vera maður ársins vegna hugrekkis síns að segja sögu sína, sögu af ólýsanlegum hryllingi bernsku sinnar, misnotkun og ofbeldi, sagði Karl.

Hann lagði einnig út af textanum við lagið Hjálpum þeim og þakkaði aðstandendum endurútgáfu þess fyrir. Nú tekur landslið íslenskra popptónlistarmanna aftur höndum saman um endurútgáfu þessa lags til ágóða fyrir hjálparstarfið í Pakistan og annars staðar þar sem leitast er við að mæta hinni gleymdu neyð á okkar hrjáðu jörð.

Mikið eigum við þessu góða fólki að þakka, sem enn og aftur gefur af sér til góðs, án þess að krefjast neins fyrir sinn snúð. Bob Geldof og Bono komu við sögu í predikun Karls en þeir hafa látið bágindi íbúa þriðja heimsins sig varða. Hjálpum þeim.

Og við getum hjálpað, sagði biskup. Örbirgð á Íslandi var Karli einnig ofarlega í huga. Við megum ekki heldur gleyma því að jafnvel hér í ofgnóttinni á Íslandi er fólks sem býr við kröpp kjör og á við margvíslega erfiðleika að etja, sagði hann og fagnaði um leið samstarfi Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstarfs kirkjunnar sem nú hafa í fyrsta sinn tekið höndum saman um jólaðstoð til þurfandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×