Lífið

Stoppa stutt á söfnunum

Annir eru, sem aldrei fyrr, á bókasöfnum landsins þegar jólabókaflóðið hellist yfir með öllum þeim reka sem því fylgir. Nýjustu bækurnar eru keyptar inn um leið og þær koma út, en örfáir dagar líða þar til þær eru settar í útlán því skráning og frágangur taka sinn tíma.

Bókþyrstir þurfa annaðhvort að stóla á heppnina eða sýna þrautseigju til að komast yfir nýjustu bækurnar á næstu vikum því ekki er hægt að leggja inn pöntun á söfnunum.

"Það verður ekki hægt að panta nýjustu bækurnar fyrr en eftir áramót," segir Erla Kristín Jónasdóttir, safnstjóri aðalsafns Borgarbókasafns Reykjavíkur.

Þannig gefast öllum jafnir möguleikar á að sjá nýja bók á söfnunum, annars gengju þær bara á milli þeirra sem hafa pantað og væru aldrei inni. Erla Kristín segir þær bækur sem eru vinsælastar af nýmetinu vera í stöðugu útláni langt fram á nýtt ár.

"Og sumar stoppa aldrei á söfnum eins og til dæmis Arnaldur. Gömlu bækurnar hans sjást varla." Sumir þeirra sem ekki hafa þolinmæði til að bíða eftir nýjustu bókunum hafa komið sér upp öðrum siðum og eru ári á eftir í lestrinum. "Ég veit að margir kíkja eftir bókunum frá því í fyrra, nú eru þær á lausu," segir Erla Kristín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.