Erlent

Einn lést eftir að aurskriða féll á hús

Ófögur sjón. Sjö manns voru við smíðar í húsinu þegar skriðan féll á það. Sex sluppu með skrámur en sá sjöundi týndi lífinu.
Ófögur sjón. Sjö manns voru við smíðar í húsinu þegar skriðan féll á það. Sex sluppu með skrámur en sá sjöundi týndi lífinu.

Aurskriða féll í gær á hús skammt utan Björgvinjar þar sem sjö manns voru að störfum. Einn þeirra lést í skriðunni. Óvenjumikil úrkoma hefur verið í vestanverðum Noregi undan­farna daga og hafa sterkir vindar fylgt votviðrinu.

Í gærmorgun féll aurskriða á hús sem verið var að gera við, rétt fyrir utan Björgvin. Sjö manns voru þar að störfum, þrír komust úr rústunum af sjálfsdáðum og fundu björgunarsveitarmenn hina þrjá á lífi, grafna í leðjunni. Leitað var að þeim sjöunda í allan gærdag með aðstoð hunda og hitaskynjunarbúnaðar en allt kom fyrir ekki því síðla dags fannst hann örendur í brakinu.

Að sögn dagblaðsins Aften­post­en hvöttu veðurfræðingar Björgvinjarbúa til að skilja bíla sína eftir heima í gær vegna ótta um að götur lokuðust sökum vatnselgs. Miklar tafir urðu auk þess á lestarsamgöngum, til dæmist sat lest á leið frá Ósló til Björgvinjar föst á teinunum í drjúga stund. Hús voru rýmd í bænum Voss vegna hræðslu um skriðuföll og á bóndabæ skammt frá féll aurskriða á hlöðu sem gjöreyðilagðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×