Erlent

Óeirðirnar eru þjóðarmein

Jacques Chirac sagði í ávarpi sínu að á næstu misserum myndu ríflega fimmtíu þúsund ungmenni hljóta hagnýta þjálfun til að þau ættu auðveldara með að fá vinnu.
Jacques Chirac sagði í ávarpi sínu að á næstu misserum myndu ríflega fimmtíu þúsund ungmenni hljóta hagnýta þjálfun til að þau ættu auðveldara með að fá vinnu.

Franska ríkisstjórnin ákvað í gær að framlengja neyðarlögin í landinu fram í febrúar á næsta ári. Jacques Chirac forseti sagði í sjónvarpsávarpi í gærkvöld að óeirðirnar í landinu að undanförnu bæru sjúkum þjóðarlíkama vitni.

Í síðustu viku var neyðarástandi lýst yfir í Frakklandi eftir mestu róstur í landinu síðan í stúdentauppreisnunum 1968. Þótt verulega hafi dregið úr óspektunum eftir að lögregluaðgerðir voru stórhertar ákvað ríkisstjórnin engu að síður að neyðarlög yrðu áfram í gildi fram í febrúar 2006. Það veitir lögreglu heimild til að setja á útgöngubönn og gera húsleitir á hvaða tíma sólarhringsins sem er.

Í gærkvöld ávarpaði Jacques Chirac forseti þjóð sína í fyrsta sinn síðan óeirðirnar hófust. Hann sagði þær merki um "sjúklegt ástand" og allir yrðu að leggjast á eitt til að berjast gegn eitri ójafnréttisins. Hann útilokaði hins vegar með öllu að lög yrðu sett um jákvæða mismunun, líkt og eru í gildi í Bandaríkjunum, til að hygla þeim þjóðfélagshópum sem orðið hafa útundan.

Aðfaranótt mánudagsins var róleg í Frakklandi en skemmdarvargar eyðilögðu "aðeins" 284 bifreiðar. Í síðustu viku voru allt að 1.400 bílar brenndir á nóttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×