Erlent

Múgur réðst að lögreglu

Eldar slökktir. Slökkviliðsmaður endar við að slökkva eld í bíl í bænum Carpentras í suðurhluta Frakklands.
Eldar slökktir. Slökkviliðsmaður endar við að slökkva eld í bíl í bænum Carpentras í suðurhluta Frakklands.

Óöldin virðist halda áfram að dvína í Frakklandi. Um laugardagsnóttina var kveikt í 374 bílum en 502 kvöldinu áður. Nokkuð rólegt var í París en í borginni Lyon voru aftur á móti miklar óeirðir sem enduðu með því að í sögulegum hluta borgarinnar tók æstur múgurinn upp á því að henda alls kyns lauslegu í lögreglu sem svaraði með táragasi.

Í borginni var einnig kastað eldsprengju inn í eina moskvu borgarinnar en hún sprakk ekki. Í suðurhluta Frakklands var brennandi bíl keyrt inn í elliheimili auk þess sem ráðist var inn í skóla og kveikt í einni skólastofu. Um fjörutíu borgir og bæir í Frakklandi hafa sett á útgöngubann á unglinga til þess að koma í veg fyrir frekari óeirðir og hefur það skilað ágætis árangri.

Michael Gudin, yfirlögreglustjóri Frakklands, segir að ef fram heldur sem horfir fari hlutirnir aftur í eðlilegt ástand mjög fljótlega. Lögreglan í höfuðborg Belgíu, Brüssel, upplifði hins vegar sína verstu nótt síðan óöldin tók að breiðast þangað að sögn talsmanna lögreglunnar þar. Nokkrar óeirðir urðu einnig í Rotterdam í Hollandi þar sem kveikt var í fjórum bílum.

Í könnun sem franska blaðið Le Journal du Dimanche birti í gær kemur fram að 71 prósent frönsku þjóðarinnar trúir því ekki að Jacques Chirac, forseti landsins, geti leyst þetta mikla þjóðfélagslega vandamál sem nú tröllríður landinu. Hins vegar telur fjórðungur þeirra sem tóku þátt í könnuninni að hinn öfga-hægri sinnaði Jean-Marie Le Pen geti leyst þessi vandamál.

Meira en helmingur þátttakenda í könnunni lýsti yfir stuðningi sínum við forsætisráðherrann Dominique de Villepin og innanríkismálaráðherrann Nicolas Sarkozy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×