Erlent

Ræningjar léku á lögreglu

Rbótar leita sprengju.Sænska lögreglan beitti ýtrustu varkárni vegna sprengjuhótunar ræningjanna við Háskólann í Jönköping og notaði fjarstýrða róbóta til að ganga úr skugga um það hvort sprengja væri í bílnum eða ekki. Stóru svæði í kringum skólann var lokað af meðan á leitinni stóð en engin sprengja fannst.
Rbótar leita sprengju.Sænska lögreglan beitti ýtrustu varkárni vegna sprengjuhótunar ræningjanna við Háskólann í Jönköping og notaði fjarstýrða róbóta til að ganga úr skugga um það hvort sprengja væri í bílnum eða ekki. Stóru svæði í kringum skólann var lokað af meðan á leitinni stóð en engin sprengja fannst.

Lögreglunni í Jönköping barst tilkynning um að sprengja væri í bíl við Háskólabókasafnið þar í bæ um hálf átta leytið í gærmorgun. Á sama tíma rændu fjórir til sjö vopnaðir menn peningageymslu öryggisfyrirtækisins Securitas. Ræningjarnir óku pallbíl í gegnum hurð á öryggisfyrirtækinu og flúðu af vettvangi á bílum og mótorhjólum.

Tæplega tíu þúsund nemendum og starfsfólki skólans var gert að yfirgefa háskólasvæðið á meðan lögreglan leitaði sprengjunnar. Síðdegis kom í ljós að engin sprengja var í bílnum. Arnar Viðarsson, sem stundar nám við Alþjóða viðskiptaháskólann í Jönköping, var meðal nemenda sem var gert að rýma háskólasvæðið. "Nemendur voru beðnir að yfirgefa skólann en þetta fór allt saman mjög rólega fram," segir Arnar sem áttaði sig ekki á því í fyrstu hvers vegna byggingarnar voru rýmdar.

"Nei, ég varð ekki hræddur. Ég fór fyrst að athuga hvort einkunnirnar mínar væru komnar áður en ég áttaði mig á hvað um væri að vera," segir Arnar.

Meðan lögreglan gerði viðeigandi varúðarráðstafanir við bókasafnið rændu vopnaðir menn öryggisgeymslu Securitas. Fjórir öryggisverðir Securitas læstu sig inni á meðan ræningjarnir athöfnuðu sig en að sögn vitna tók ránið ekki nema um hálfa mínútu. Lögreglan kom ekki í öryggisgeymsluna fyrr en um klukkustund eftir að ræningjarnir voru á bak og burt, þótt það væri einungis tæpur kílómetri á milli öryggisgeymslunnar og háskólabókasafnsins.

Sprengjusveit lögreglunnar í Malmö var kölluð til við háskólabókasafnið. Hún notaðist meðal annars við tvö vélmenni til að ganga úr skugga um hvort sprengja væri í bílnum.

Ekki er vitað hversu miklum peningum ræningjarnir stálu. Að sögn talsmanna Securitas náðu þeir aðeins lítilli fjárhæð en að sögn vitna báru ræningjarnir fimm peningasekki út úr öryggisgeymslunni.

Ránið í gær er eitt fjölmargra rána sem framin hafa verið í Svíþjóð síðustu mánuði. Í síðustu viku var peningaflutningabíll frá Securitas sprengdur og peningum úr honum rænt. Öryggisverðir Securitas hafa lagt niður störf þar sem þeir óttast um öryggi sitt. Sérsveit lögreglunnar, sem var sérstaklega stofnuð til að vinna gegn ránum á peningaflutningabílum, hafði ekki verið kölluð út í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×