Erlent

Peretz bar sigurorð af Peres

Amir Peretz. Reiknað er með að Peretz muni færa Verkamannaflokkinn lengra til vinstri.
Amir Peretz. Reiknað er með að Peretz muni færa Verkamannaflokkinn lengra til vinstri.

Verkalýðsleiðtoginn Amir Peretz vann óvæntan sigur á Shimoni Peres í leiðtogakjöri ísraelska Verkamannaflokksins í gær. Stjórnarsamstarf flokksins og Likud-bandalagsins er talið í hættu og útlit fyrir að þingkosningar verði haldnar fyrr en áformað var.

Mjótt var á mununum í kjörinu, Peretz hlaut 42 prósent atkvæða en Peres fjörutíu. Fyrr á þessu ári settist Verkamannaflokkurinn í stjórn með Likud-bandalaginu til að ­tryggja­­ því stuðning við brottflutning landnema frá Gaza-ströndinni. Peretz lýsti því hins vegar yfir strax að loknu kjörinu að þar sem brottflutningnum væri lokið ætti flokkurinn að einbeita sér að efnahagsumbótum og fá þingkosningum flýtt, en þær eru áformaðar í nóvember 2006.

Stjórnmálaskýrendur segja kjör marokkóska innflytjandans Peretz, einhver mestu tíðindi í ísraelskri stjórnmálasögu síðustu ára, en gyðingar ættaðir frá Austur-Evrópu hafa alla tíð haft tögl og hagldir í Verkamannaflokknum. Hins vegar er fastlega búist við að pólitískir dagar hins 82 ára gamla Peres, handhafa friðar­verðlauna Nóbels, séu taldir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×