Lífið

Mörgæsirnar eru fæddar kvikmyndastjörnur

Keisaramörgæsirnar. Hið magnaða ferðalag mörgæsanna hefur heillað heimsbyggðina upp úr skónum og er myndin orðin önnur aðsóknarmesta heimildarkvikmynd sögunnar.
Keisaramörgæsirnar. Hið magnaða ferðalag mörgæsanna hefur heillað heimsbyggðina upp úr skónum og er myndin orðin önnur aðsóknarmesta heimildarkvikmynd sögunnar.

Þrettán mánuðir í fjörutíu stiga frosti á einhverju einangraðasta landsvæði jarðarinnar. Í fljótu bragði hljómar þetta ekki eins og ákjósanlegur vinnuaðstæður en Luc Jacquet, leikstjóri kvikmyndarinnar um ferðalag mörgæsanna, segist sakna vetrarins á Suðurskautslandinu.

Luc Jacquet er frekar hávaxinn og stórgerður, menntaður líffræðingur sem hefur sérhæft sig í hegðunarmynstri dýra. Mynd hans um ferðalag keisaramörgæsanna hefur slegið í gegn um allan heim. Hún er önnur aðsóknarmesta heimildarkvikmynd sögunnar og ein aðsóknarmesta erlenda myndin í Bandaríkjunum. Luc fór fyrst á Suðurskautslandið árið 1992, þá sem vísindamaður þar sem hann dvaldist á franskri rannsóknarstöð.

"Eftir þá ferð langaði mig til að deila þessari lífsreynslu með öðrum," segir Luc á bjagaðri ensku en hann hefur með sér túlk ef honum skyldi liggja mikið niðri fyrir. "Mér fannst áhugavert að nálgast viðfangsefnið með meiri ástríðu en vísindarannsóknir krefja og segja frá af meiri ákafa," útskýrir hann. Luc segist ekki vera brjálaður þó að í fljótu bragði virðist það óðs manns æði að standa úti í þeirri hríð sem við sjáum í myndinni. "Sumir kunna vel við sig þegar þeir klífa fjöll. Aðrir vilja ganga í marga daga," segir Luc.

"Það var mikil áskorun að vera þarna en okkur leið vel. Í raun sakna ég vetrarins á Suðurskautslandinu," útskýrir hann og hlær. Myndin sem aldrei átti að verða Í lok myndarinnar dylst engum að þarna er meistarastykki á ferð. Á "Spurt og svarað"-sýningu sem Jacquet var viðstaddur hér á landi fékk hann fjölda spurninga, þar á meðal hvað hefði verið erfiðast. Luc svaraði því til að það hefði ekki verið einangrunin né kuld­inn heldur að fá peninga. Það virðist enda hálf asnalegt að koma á fund kvikmyndaframleiðanda og ætlast til þess að þeir leggi peninga í mynd um mörgæsir.

"Í maí á síðasta ári var buddan orðin tóm. Viku fyrir Cannes-hátíðina fundum við dreifingaraðila sem lagði til það sem upp á vantaði," segir Luc og bætir við að ef þetta hefði ekki gengið eftir hefði myndin aldrei orðið að veruleika. "Þetta framlag veitti henni framhaldslíf og henni var dreift til fimmtíu landa," segir hann hróðugur en viðurkennir að hér hafi heppni spilað stóra rullu. "Til að njóta svona velgengni þarf maður á henni að halda," útskýrir hann. Luc segist ekki strax hafa gert sér grein fyrir því hversu mikla stjörnuhæfileika keisaramörgæsirnar hefðu. "Ég áttaði mig ekki á því fyrr en seinna," segir hann og heldur áfram að hlaða þær lofi.

"Þegar fram liðu stundir áttaði ég mig á því að mörgæsirnar voru hið fullkomna dýr til að mynda," útskýrir hann. "Þær eru vinalegar, þær tala ekki framandi tungu þannig að það er hægt að þýða þær yfir á öll tungumál heims, engar samningaviðræður þurfa að fara fram og þær krefjast ekki hluta af gróðanum. Ég þarf ekki einu sinni að senda þeim humar," segir leikstjórinn og hlær dátt. Textinn eingöngu til útskýringar Það er engin dramatísk sinfónía sem dynur í eyrum áhorfendans undir myndinni heldur tónlist hinnar ungu Emilie Simon.

"Ég vildi tónlist sem væri samin í núinu og Emilie Simon hentaði vel til verksins," útskýrir Jacquet og segir að það hafi heppnast mjög vel því verkið hennar sé í stíl við myndina. "Tónlistin hefur yfir sér ævintýralegan blæ," útskýrir hann. Texti sem lesinn er í myndinni er notaður á mjög hógværan hátt enda segir leikstjórinn að hann eigi eingöngu að vera til útskýringar á framvindu mála. "Þetta er reyndar saga sem skilst ekki án texta. Það er til að mynda ekki hægt að gera greinarmun á karl- og kvenfugli. Áhorfandi sem glatar þeirri útskýringu missir tengingu við söguna og glatar þeim krafti sem umlykur hana," segir Luc.

"Ég vildi nota sem minnst af orðum en nóg samt til að áhorfandinn skildi hvað væri að gerast." Of þreyttur Neðansjávarsenurnar í myndinni eru magnaðar en þar sést hvar kvenfuglarnir veiða sér til matar og safna forða handa ófædda unganum. Þær synda mitt á meðal rándýra en mörgum hefur verið það hulin ráðgáta hvernig þessar tökur fóru fram.

"Það fóru tveir reyndir kafarar undir íshelluna og dvöldust þar í 45 mínútur í senn með myndatökuvél. Þegar þeir komu upp voru þeir eitt stórt bros. Ég vissi reyndar aldrei hvort þeir væru svona glaðir eða bara freðnir," segir Luc og hlær.

@Mynd -FoMed 6,5p CP:luc jacquet Eftir þrettán mánaða dvöl á Suðurskautslandinu var leikstjórinn svo þreyttur að hann beið í ár eftir að láta framkalla filmurnar.

Það er augljóst að hann dáist að samstarfsfólki sínu enda segir hann að allir hafi lagst á eitt við að gera myndina sem best úr garði. Eftir að hafa dvalist í þrettán mánuði fjarri mannabyggðum kom Luc loksins heim. Dvölin reyndi svo mikið á líkamlegt þrek hans að Luc treysti sér ekki til að líta á efnið í rúmt ár.

"Þetta var einhver brjálæðislegasta áskorun sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í," viðurkennir hann. Þegar filmurnar fóru loks í framköllun beið hann milli vonar og ótta enda hafði leikstjórinn aldrei séð hvað hann hafði í höndunum. Aðstæðurnar á Suðurskautslandinu eru ekki beint klæðskerasniðnar fyrir kvikmyndagerð.

"Svo hringdi loksins náunginn frá framköllunarfyrirtækinu og ætlaði að hefja einhverja langlokuræðu um hitt og þetta. Ég öskraði bara á hann hvort þetta væri í lagi," útskýrir Luc og skellir upp úr. Minningin um hið jákvæða svar mannsins hinum megin við línuna á eflaust eftir að ylja honum um hjartaræturnar á ævikvöldinu. Hvergi sést manneskja í myndinni og leikstjórinn passar sig á því að halda sér í góðri fjarlægð frá viðfangsefninu. Hann segist hafa viljað miðla sinni líðan á þessum stað.

"Sagan er nógu sterk og fegurð hennar er svo mikil að ég þurfti aldrei að blanda mér inn í þetta líf."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.