Erlent

Blair hvetur flokkinn til einingar

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hitti þingflokk Verkamannaflokksins bak við luktar dyr í gær, en nokkur órói hefur verið í flokknum eftir að ljóst varð hvaða menn Blair skipaði til liðs við nýja ríkisstjórn sína. Sumir eru óánægðir með að Blair skuli hafa gengið framhjá kjörnum fulltrúum flokksins er hann skipaði tvo utanflokksráðgjafa sína í aðstoðarráðherrastöður. Aðrir, sem kenna óvinsældum hans vegna Íraksstríðsins um það hve miklu fylgi flokkurinn tapaði í kosningunum nýafstöðnu, vilja að Blair hætti strax sem flokksleiðtogi. Þeirri kröfu var klárlega hafnað af miklum meirihluta þingflokksins. Blair fullvissaði þingmennina um að hann myndi víkja fyrir næstu kosningar, en krafðist þess jafnframt að flokksmenn stæðu saman á þessu þriðja kjörtímabili hans við stjórnvölinn. Blair sagði að fjórði kosningasigurinn í röð væri innan seilingar, að því gefnu að flokkurinn héldi einingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×