Innlent

Maður um þrítugt í gæsluvarðhald

Maður um þrítugt var í gær í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald, grunaður um aðild að stóru fíkniefnamáli, þar sem maður var handtekinn í Leifsstöð 24. maí síðastliðinn með eitt kíló af amfetamíni og annað eins af kókaíni. Meintur samverkamaður var handtekinn síðdegis í fyrradag og yfirheyrður í gær. Það leiddi síðan til þess að hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Umræddur maður er af höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur áður komið við sögu í fíkniefnamálum og verið dæmdur fyrir. Upphaf þessa máls er að Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli fann fíkniefnin við eftirlit á íslenskum manni sem var að koma frá Kaupmannahöfn þann 24. maí. Hafði hann falið efnin innanklæða á nokkrum stöðum en hafði ekki límt þau á líkamann eins og gjarnan er gert þegar um er að ræða tilraunir til smygls af þessu tagi. Maðurinn reyndist vera með eitt kíló af kókaíni og eitt kíló af amfetamíni. Er þetta mesta magn þessara efna sem einn maður hefur reynt að smygla inn í landið til þessa. Hann var úrskurðaður í 3 vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur daginn eftir komuna til landsins. Umræddur maður er 39 ára. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur hann gerst brotlegur við lög áður. Fíkniefnalögreglan verst frekari frétta af málinu, en rannsókn stendur enn yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×