Innlent

40 þúsund í hestaferðir

Að þessu sinni eru 3.000 - 3.500 erlendir gestir á Landsmóti hestamanna á Hellu," sagði Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. Hann sagði að hestaferðir nytu sívaxandi vinsælda erlendra ferðamanna. Áætla mætti að um 3.000 manns fari í lengri hestaferðir hér á hverju ári. Þar kæmi þjónusta Icelandair ekki einungis við sögu, því margir bændur hefðu atvinnu að því að þjóna þessu fólki, með leiðsögn, útvegun hesta eða gistingu. Ef litið væri til styttri ferða þá væri fjöldinn enn meiri. Mætti áætla að á síðasta ári hefðu allt að 40.000 manns keypt sér slíka hestaferð. Ekki mætti gleyma Landsmóti hestamanna sem drægi að sér þúsundir erlendra ferðamanna sem dveldu lengi og keyptu hér fjölbreyttari þjónustu. "Ekkert eitt fyrirbæri í íslenskri náttúru eða íslenskri menningu dregur til sín annan eins fjölda ferðamanna og íslenski hesturinn," sagði Steinn Logi. "Nú er svo komið að fleiri íslenskir hestar eru á erlendri grundu en á Íslandi. Reikna má með að í Evrópu séu vel á annað hundrað þúsund íslenskir hestar. Áætlað hefur verið að á bak við hvern íslenskan hest í útlöndum séu 3-4 einstaklingar. Allir þessir einstaklingar eru líklegir til að vilja heimsækja Ísland í tengslum við áhugamál sitt. Það er með þessa hagsmuni í huga sem Icelandair er aðalstuðningsaðili Landsmóts hestamanna, Icelandair Horse Festival, sem við höfum gert sex ára samning um. Við erum að stórauka markaðssetninguna erlendis og viljum reyna að höfða til breiðari hóps.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×