Erlent

Hundrað þúsund Írakar látnir

Um hundrað þúsund Írakar hafa látist af völdum innrásarinnar í Írak og eftirleiks hennar samkvæmt rannsókn vísindamanna sem læknaritið Lancet greinir frá. Flestir þeirra sem hafa látist biðu bana af völdum ofbeldis, flestir þeirra af völdum Bandaríkjahers og bandamanna. Meira en helmingur þeirra sem létust af völdum aðgerða fjölþjóðaliðsins, einkum í loftárásum, voru konur og börn að því er rannsóknin leiðir í ljós. Ungbarnadauði hefur tvöfaldast, 57 af hverjum þúsund börnum látast nú en 29 af hverjum þúsund fæddum börnum fyrir innrásina. Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að dánarlíkur væru 2,5 sinnum meiri fyrstu átján mánuðina eftir innrásina en síðustu fimmtán mánuðina fyrir hana. Ef bardagar í og við borgina Falluja eru undanskildir eru dánarlíkur 1,5 sinnum meiri en áður og meta vísindamennirnir það sem svo að 98 þúsund fleiri Írakar hafi látist eftir innrásina í Írak en búast hefði mátt við ef innrásin hefði ekki verið gerð. Sú tala væri mun hærri ef mannfall í Falluja væri talið með.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×