Erlent

Hjálparsamtök fara frá Írak

Meirihluti þeirra alþjóðlegu hjálparsamtaka sem enn starfa í Írak íhugar nú að hætta allri starfsemi þar og kalla starfsmenn sína heim. Byssumenn ruddust inn á skrifstofu ítalskra hjálparsamtaka um hábjartan dag í gær og rændu tveimur ítölskum konum sem þar unnu. Konurnar eru báðar 29 ára og unnu aðallega við að sjá sjúkrahúsum í Bagdad fyrir lífsnauðsynlegum vistum. Almenningur á Ítalíu er skiljanlega í miklu uppnámi enda er skemmst að minnast þess að mannræningjar tóku ítalskan blaðamann af lífi í Írak í ágúst og ítalskur öryggisvörður var myrtur af ræningjum í apríl. 2700 ítalskir hermenn eru í Írak og það er þess vegna sem öfgahópar beina sjónum sínum að Ítölum enda vilja þeir setja þrýsting á ítölsk stjórnvöld að kalla hersveitir sínar heim. Hópurinn sem rændi konunum í gær hefur einmitt hótað því að halda áfram að ræna ítölskum ríkisborgurum. Þeim hjálparsamtökum sem starfa í Bagdad fer óðum fækkandi og eru nú aðeins um fimmtíu. Talið er að í kjölfar þessa mannráns hætti flest samtakanna starfsemi sinni eða kalli meirihluta starfsmanna sinna heim. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna skýrði frá því í dag að tala þeirra bandarísku hermanna sem látið hafa lífið í Írak væri komin yfir eittþúsund. Það jafngildir því að tveir bandarískir hermenn hafi látið lífið á degi hverjum frá því ráðist var inn í landið í mars í fyrra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×