Erlent

Arafat við dauðans dyr

Heilsu Jasser Arafats hrakaði mjög í fyrrinótt þegar hann fékk heilablóðfall. Sögur gengu um það í gær að Arafat væri látinn en læknar hans báru það til baka og sögðu hann lifandi en heilsu hans mjög bágborna. Hjarta, lungu og heili Arafats virka enn sagði Nabil Shaath, utanríkisráðherra Palestínu, á blaðamannafundi í gær. Hann sagði jafnframt að læknar Arafats hefðu útilokað að hann þjáðist af krabbameini eða að eitrað hefði verið fyrir honum, ekki liggur þó fyrir hvað það er sem hrjáir forsetann. Fyrr í gær hafði AFP fréttastofan eftir ráðherra í heimastjórn Palestínumanna að Arafat væri látinn, einungis ætti eftir að ákveða hvenær það yrði tilkynnt. Þessu neituðu læknar Arafats og síðar utanríkisráðherrann. Ákveðið hefur verið að Arafat verði jarðaður í Ramalla. Gengið virðist út frá því að hann andist á næstunni og sá Shaath ástæðu til að taka fram að ekki yrði slökkt á vélum til að flýta fyrir láti hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×