Innlent

Niðurstaða ekki í sjónmáli

Samninganefnd kennara og launanefnd sveitarfélaganna funda um helgina í Karphúsinu. Finnbogi Sigurðsson formaður Félags grunnskólakennara segir á vef Kennarasambandsins viðræðurnar hafa verið gagnlegar en endanlega niðurstöðu ekki í sjónmáli.Fækkað hefur um tvo í hvorri nefnd á síðustu fundum. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari segir það auðvelda mönnum að ræða saman af hreinskilni og fara yfir mörg ágreiningsefni. "Það er ljóst að enn ber mjög mikið á milli. Ég vona að ekki komi til verkfalls en ég ætla ekki að fullyrða um að það náist að semja fyrir boðaðan verkfallstíma. Það einfaldlega verður að ráðast," segir Ásmundur. Skólastjórnendur hafa rétt eins og grunnskólakennarar sótt fundi ríkissáttasemjara. "Það lýkur enginn samningum við skólastjóra eina og sér þar sem kjör þeirra tengjast beint kjörum kennara. Margvísleg mál snúa þó að skólastjórum einum og þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar," segir Ásmundur og bætir við: "Að mínu mati er æskilegast að ganga frá samningum skólastjórnenda samhliða kennurum." >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×