Innlent

Guði sé lof fyrir Kárahnjúka

Gjaldþrot norska fyrirtækisins Promex, sem fyrirhugaði starfsemi í Mývatnssveit, olli vonbrigðum fyrir norðan en nokkrar vonir voru bundnar við fyrirtækið, ekki síst eftir að Kísiliðjan hætti starfsemi um síðustu mánaðamót. "Þetta fyrirtæki var í einkaeigu en það er ekki meira um það að segja. Það er ekki fast í hendi fyrr en það er í fast í hendi," segir Guðrún María Valgeirsdóttir, oddviti í Skútustaðahreppi. Hún segir að heldur hafi ræst úr atvinnumálum í sveitinni því að margir hafa verið að fá vinnu á síðustu dögum, ýmist tímabundna eða til framtíðar. Menn hafi ýmsa kosti og miklar vonir séu bundnar við Kárahnjúka. "Ég segi nú bara: Guði sé lof fyrir Kárahnjúka," segir hún. Yfir 40 Mývetningar misstu vinnuna þegar Kísiliðjan hætti starfsemi en nú eru ekki nema um 30 atvinnulausir. Guðrún María segir ýmsa atvinnumöguleika í stöðunni, ferðaþjónustan hafi verið að sækja í sig veðrið en nánar sé ekki hægt að upplýsa um þá að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×