Innlent

Ómarkviss fiskveiðistjórnun

Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir vinnu við endurskoðun úthafssamnings Sameinuðu þjóðanna að hefjast. Hann segir mikilvægt að sjávarútvegsráðherrar Norður-Atlandshafslanda vinni saman í þeim málum og hafi áhrif: "Satt að segja hefur fiskveiðistjórnun á úthafinu utan lögsagna ríkja ekki ekki verið eins markviss og árangursrík og nauðsynlegt væri." Sjávarútvegsráðherrar Færeyja, Grænlands, Kanada, Noregs og Rússlands ásamt sendifulltrúa Evrópuráðsins og Árna hittust um helgina í Stykkishólmi og ræddu verðmætaaukningu sjávaraflans, samvinnu í kynningu sjávarafurðanna sem heilsusamlega vöru og nauðsyn þess að berjast gegn misvísandi umfjöllunum um fiskveiðar á mörkuðum heimsins. Árni segir ekki óalgengt að erlendir fjölmiðlar birti neikvæðar fréttir af fiskafurðum og innihaldi þeirra. Í sjómannadagsræðu sinni sagði Árni að áróður gegn fiskafurðum gæti með skjótum hætti bitnað á útflutningstekjum landsins. Hann sagði stórfyrirtæki eins og hið franska Carrefour og McDonalds setji eigin kröfur. "Fyrirtækin gera ríka kröfu um öryggi matvæla og sjálfbærni og nú þegar hefur starfsfólk sjávarútvegsráðuneytisins þurft að gefa skýringar á því hvers vegna við veiðum umfram það aflamark sem er ákveðið í upphafi hvers fiskveiðiárs." Aðspurður segir Árni fyrirspurnirnar hafa haft góð áhrif. "Við vorum að fá símhringingu frá Frakklandi að Carrefour hefði auglýst í stóru frönsku blaði að þeir keyptu aðeins fisk frá Íslandi af því að veiðarnar væru sjálfbærar og aðeins væri veitt á línu." Árni segir að löndin við Norður-Atlandshafið hafi mikla sameiginlega hagsmuni í sjávarútvegi og séu háð hvert öðru vegna viðskipta. "Við eigum öll það sameiginlegt að vel sé staðið að fiskveiðum í heiminum almennt og að það fari gott orð af fiskveiðum og sjávarafurðum. Sameiginlegir hagsmunir eru miklu meiri en það sem aðskilur okkur vegna samkeppni," segir Árni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×