Innlent

Alltaf einhverjir í viðtölum

"Við geðlæknarnir í nefndinni erum alltaf með einstaklinga, sem við erum að meta, í viðtölum" sagði Óttar Guðmundsson geðlæknir, sem sæti á í nefnd landlæknisembættisins sem metur stöðu þeirra sem óska eftir að fara í kynskiptiaðgerð. Í nefndinni eiga þrír sérfræðilæknar sæti. Óttar sagði að aldrei hefði verið gefinn upp fjöldi þeirra sem biðu á hverjum tíma, hversu margir væru í viðtölum eða hefðu farið í kynskiptiaðgerðir. Matsferli nefnarinnar væri margþætt og tæki langan tíma. Síðan tæki nefndin ákvörðun um hvort viðkomandi mætti fara í aðgerð eða ekki. "Viðkomandi þarf að fara í viðtöl við geðlækni, sálfræðipróf, skoðun og viðtal við kvensjúkdómalækni og þvagfæralækni, það eru hormónapróf. Þá þarf einstaklingurinn að lifa í hlutverki hins kynsins talsvert lengi, þannig að hann viti í raun og veru hvað hann er að fara út í. Svo er hormónameðferð í eitt ár," sagði Óttar. "Eftir þetta kemur aðgerð, ef af henni verður. Þetta er stór ákvörðun og alveg óafturkræf eftir að aðgerð hefur farið fram." Hann sagði að ef nefndin hafnaði fólki fengi það hjálp til að sætta sig við það kyn sem það væri fætt inn í. Þá væri vitað að Íslendingar hefðu farið í slíkar aðgerðir í útlöndum, en það hefði verið áður en möguleikar hefðu opnast til að fara í aðgerð hér heima.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×