Erlent

Legoland-garðarnir seldir?

Einn af aðaleigendum Lego er hættur sem framkvæmdastjóri leikfangafyrirtækisins eftir að áætlanir um að rétta af rekstur þess mistókust. Meira tapi er spáð í árslok en raunin varð í fyrra og kemur til greina að selja Legoland-skemmtigarðana. Stefnt var að núllinu á þessu ári eftir sautján milljarða íslenskra króna tap í fyrra. Þá var framkvæmdastjórinn rekinn og einn stærsti hluthafinn í fjölskyldufyrirtækinum Lego, Kjeld Kirk Kristiansen, tók við. Undir hans stjórn stefnir í meira tap í árslok - allt að 25 milljarða íslenskra króna fyrir skatta. Í tilkynningu frá Lego orðar Kjeld það þannig að hann telji núna rétta tímann fyrir framtíðarstjórnendur að taka við áætlunum hans um bættan fjárhag sem hann hafi unnið að frá ársbyrjun. Stjórnin verður áfram óbreytt og hann varaformaður hennar. Kjeld hefur undanfarið lækkað um nokkur sæti á lista Forbes-tímaritsins yfir ríkustu menn í heimi og er nú númer 205. Ástæða slæms efnahags Lego er léleg sala í Bandaríkjunum og Japan og auk þess segir fyrirtækið að hörð samkeppni á leikfangamarkaði haldi verðinu niðri. Þrátt fyrir aukna sölu í Suður- og Austur-Evrópu hefur heildarsala í álfunni verið minni en í fyrra og er þar meðal annars um að kenna að Lego hefur ekki náð að anna spurn eftir vinsælustu vörutegundunum. Lego segir að kostnaður hafi reyndar minnkað um 15 milljarða íslenskra króna undanfarið ár og stöðugildum hafi fækkað um eitt þúsund en starfsmenn fyrirtækisins eru nú ríflega sjö þúsund. Til að rétta úr legokubbunum íhugar fyrirtækið nú að selja fjóra Legoland-garða sína sem eru í Billund í Danmörku, Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×