Sport

Einar skoraði níu mörk

Jólasteikin fór misvel í íslensku handboltastrákana í Þýskalandi, sumir spiluðu vel í vikunni en aðrir voru þyngri á sér. Einar Hólmgeirsson sleppti greinilega ábótinni þetta árið því hann var í fantaformi með liði sínu Grosswallstadt er það sigraði Tus Lubbecke, 40-35. Einar skoraði níu mörk í öllum regnbogans litum og Snorri Steinn Guðjónsson lék einnig vel fyrir Grosswallstadt og skoraði fjögur mörk. Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaður Essen, mætti félaginu sem hann leikur með á næsta ári, Gummersbach, og varð að lúta í lægra haldi, 30-29. Hann sýndi leikmönnum Gummersbach hverju þeir mega búast við á næsta ári með að skora fimm góð mörk. Markús Máni Michaelsson komst ekki á blað hjá Düsseldorf er liðið tapaði fyrir Kiel, 36-29. Alexander Pettersons var ívið ferskari hjá Düsseldorf og skoraði fjögur mörk. Logi Geirsson lék vel fyrir Lemgo og skoraði fimm mörk er liðið tapaði fyrir Flensburg, 31-29. Lið Gylfa Gylfasonar og Einars Arnar Jónssonar töpuðu bæði sínum leikjum og hornamennirnir skoruðu báðir eitt mark í leikjunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×