Sport

Real úti á þekju gegn Sevilla

Stórlið Real Madrid kórónaði eitt versta tímabil sitt um langa hríð í fyrrakvöld þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Sevilla 0-1. Var leikur liðsins svo dapur að annars sauðtryggir aðdáendur liðsina bauluðu og hrópuðu á leikmenn þess nánast allan síðari hálfleikinn. Tapið þýðir að Real er í fjórða sæti deildarinnar heilum þrettán stigum á eftir Barcelona. Gárungar á Spáni tala orðið um "annus horribilis" hjá félaginu sem gróflega íslenskað þýðir hrapallegt ár og eru orð að sönnu þegar litið er til þeirra væntinga sem gert var til liðsins eftir kaup fyrir þessa leiktíð. Varnarmaðurinn Walter Samuel hefur reynst ein verstu kaup ársins og Michael Owen hefur fengið fá tækifæri þrátt fyrir að skora mörk með jöfnu millibili. Nýráðinn stjóri knattspyrnumála hjá Real, Ítalinn Arrigo Sacchi, var í stúkunni á leiknum og fékk nasaþef af því hversu mikil vinna bíður kappans þegar hann tekur formlega við starfinu í vor. Meðan Real laut í gras sigraði Barcelona nýliða Levante 2-1 og tryggði stöðu sína frekar á toppnum. Valencia virðist vera á uppleið á ný og lagði spútniklið Espanyol 3-0 og er þar með komið í annað sæti. Deportivo tapaði enn einum leiknum á heimavelli fyrir Zaragoza 2-3. Botnliðin Mallorca og Malaga töpuðu bæði illa fyrir baskaliðunum. Mallorca 4-0 fyrir Athletic Bilbao og Malaga á heimavelli 1-5 fyrir Sociedad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×