Lífið

Konur fjölmennari en karlarnir

Konur eru í meirihluta í uppeldisgreinum og hjúkrunarfræði og hefur sókn karla í þær greinar ekki aukist jafn mikið undanfarin ár og sókn kvenna í karlagreinar. Af öllum deildum er hlutfall kynjanna ójafnast í hjúkrunardeild en þar eru 97 prósent nemenda konur. Í raunvísindadeild eru konur fjölmennari en karlar en þar er misskiptingin mikil í sumum skorum. Í stærðfræðideild eru þær til dæmis bara 30 prósent, eðlisfræðiskor fjórðungur eða 24 prósent og í matvælafræði 74 prósent. Í verkfræðinni eru karlmenn yfirleitt í meirihluta, eða 72 prósent, en þó hefur sókn kvenna aukist síðustu ár. Í umhverfis- og byggingaverkfræði eru konur 51 prósent en í tölvunarverkfræðiskori eru þær aðeins 12 prósent. Í viðskipta- og hagfræðideild eru konur í meirihluta, eða 53 prósent. Konurnar eru fleiri í viðskiptaskori en hagfræðiskori. Þær eru 58 prósent í viðskiptunum en 37 prósent í hagfræðinni. Berglind Rós Magnúsdóttir, jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands, segir að konur séu að meðaltali eldri en karlarnir þegar þær koma í háskólann. Þær séu að meðaltali 28 ára meðan karlarnir séu 26 og það kunni að vera ein af ástæðunum fyrir því hvers vegna konur eru svo margar í skólanum. Hún segir að svo virðist sem meiri virðing sé fyrir námi, sem í hugum flestra tengist karlmennsku, og því sé ásókn beggja kynja meiri í þær greinar. Þessum hugmyndum þurfi að breyta ef rétta eigi kynjahlutföll. Mikilvægt sé að karlar sinni kennslu-, uppeldis- og hjúkrunarstörfum. Innan Háskóla Íslands er verið að kanna af hverju karlar sækja ekki meira í hjúkrunarfræðina, ekki síst þar sem hlutfall þeirra er hærra í nágrannalöndunum. Stúlkur eru fjölmennari en piltar á framhaldsskólastigi og virðast piltarnir frekar hverfa frá námi. Erlendar rannsóknir sýna að sjálfstraust stúlkna eykst með meiri menntun meðan sjálfstraust karla virðast óháðara menntuninni. Konurnar sækja ekki bara námsgráðu heldur líka þor til að hafa rödd og áhrif í samfélaginu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.