Innlent

WHO fundar í Reykjavík

Tveggja daga aukafundur framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, hefst í Reykjavík nú á fimmtudaginn. Þetta er í fyrsta skipti sem framkvæmdastjórn stofnunarinnar heldur fund hér á landi en Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, var kjörinn formaður framkvæmdastjórnarinnar fyrr á þessu ári. Davíð er fyrsti Íslendingurinn sem gegnir þessu starfi og fyrsti Norðurlandabúinn sem kosinn er formaður framkvæmdastjórnarinnar í tæp fjörutíu ár. Meðal þeirra sem sækja fundinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, dr. Lee Jong-wook, en hann tók við starfi forstjóra stofnunarinnar á síðasta ári. Fundurinn er lokaður öðrum en framkvæmdastjórn og starfsliði stofnunarinnar en á honum verður fjallað um áhrif ólíkra þátta á lýðheilsu í heiminum á komandi árum. Um 70 manns koma hingað til lands í tengslum við fundinn en auk 32ja fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru það forstöðumenn svæðaskrifstofa, starfslið aðalskrifstofunnar í Genf auk fyrirlesara og túlka. Á meðan framkvæmdastjórnin dvelur hér á landi mun hún hitta Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Þá mun Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra ávarpa framkvæmdastjórnina í upphafi fundarins á fimmtudag og í lok fundarins á föstudag verður flutt ávarp utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er ein stærsta undirstofnun Sameinuðu þjóðanna en alls eiga 192 ríki aðild að stofnuninni. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að bættu heilbrigði þjóða heims. Meðal annars er stofnuninni ætlað að hafa eftirlit með hættulegum smitsjúkdómum á borð við bráðalungnabólgu og fuglaflensu og að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, dr. Lee Jong-wook, er læknir að mennt frá Seoul í Kóreu. Hann tók við starfi forstjóra stofnunarinnar af Gro Harlem Brundtland í maí á síðasta ári eftir að hafa starfað hjá stofnuninni um 20 ára skeið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×