Innlent

Magakveisa ekki vegna pottréttar

Búið er að útiloka það að sýkingin sem olli því að um 200 nemendur í Menntaskólanum á Akureyri fengu heiftarlega magakveisu og niðurgang var ekki vegna pottréttar úr mötuneyti skólans. Garðar Stefánsson, bryti skólans, segist hafa fengið þetta staðfest frá trúnaðarlækni skólans. "Læknirinn fullyrðir að ekki hafi verið um matarsýkingu að ræða," segir Garðar. "Þetta er auðvitað mikill léttir fyrir mig. Þegar þetta kom upp leit ég það alvarlegum augum. Það var ég sem kallaði eftir lækni og stóð fyrir því að þetta yrði rannsakað. Það var því ekki eins og ég hefði verið að reyna að fela neitt." Tekin voru saursýni úr nemendum en þar sem maturinn var búinn voru ekki tekin nein sýni úr honum. Ekki náðist í trúnaðarlækninn í gær og því er enn óljóst hvers konar sýkingu var um að ræða. Veikindin komu upp fyrir viku síðan og sagði Jón Ingi Björnsson, nemandi skólans sem er auk þess á heimavist hans, að ástandið hefði verið afar slæmt. Nemendur hefðu í tíma og ótíma þurft að hlaupa úr tímum til að fara á klósettið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×