Innlent

Flugmönnum fjölgar hjá Icelandair

Icelandair hefur ráðið um fjörutíu flugmenn af 150 sem sóttu um störf hjá fyrirtækinu. Flugmönnum fyrirtækisins fjölgar í um 250 við ráðninguna eða um tuttugu prósent. Halldór Þ. Sigurðsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir atvinnuástand flugmanna nú gott. Tuttugu flugmönnum hafi verið sagt upp störfum í september hjá Icelandair. Þeir séu allir komnir aftur til starfa. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að búist sé við að umsvif fyrirækisins aukist um fimmtán prósent á næsta ári: "Í fyrra stækkuðum við leiðarkerfið um tólf til fimmtán prósent og vöxturinn er mikill um þessar mundir." Fimm af flugmönnunum sem ráðnir voru til Icelandair störfuðu hjá Flugfélagi Íslands. Jón Karl Ólafsson, forstjóri félagsins, segir sjö til níu flugmenn verða ráðna fyrir þá sem hverfi frá. Um 120 flugmenn hafi lagt inn umsóknir. "Auðvitað vildum við helst ekki þurfa að sjá á eftir góðu fólki en það er eins og það er. Við höfum einnig verið að ráða flugmenn frá öðrum flugfélögum," segir Jón Karl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×