Innlent

Gengisþróun góð fyrir bæjarsjóð

Seinni umræða um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2005 verður lögð fyrir bæjarstjórn í dag. Gert er ráð fyrir rúmum 50 milljörðum í afgang A hluta bæjarsjóðs, sem er um 76 milljarða betri afkoma en spáin fyrir núverandi ár segir til um. Fulltrúi sjálfstæðismanna segir stöðuna líta betur út en hún er í raun og veru vegna hagstæðrar gengisþróunar. Gert er ráð fyrir sjö prósent fjölgun íbúa Hafnarfjarðar, að meðaltali næstu fjögur árin. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að fjölgunin á þessu ári sé hátt í fjögur prósent, sem er um þúsund manns, en fjölgunin á næsta ári verði hátt í 15 prósent. Meðal annars vegna íbúafjölgunar er ger ráð fyrir að skatttekjur bæjarsjóðs aukist um tæpan hálfan milljarð og verði rúmar 5.8 milljarðar árið 2005. "Við ætlum ekki að auka hér við skuldir," segir Lúðvík. "Aukin íbúafjölgun þýðir aukin þjónusta, en við verðum að halda skynsamlega utan um það. Það hjálpar til að nú eru uppgangstímar." Á fundi í dag verður lögð fram tillaga um hagræðingu upp á um 100 milljónir vegna launahækkana kennara og segir Lúðvík að þeirri hagræðingu verði dreift á milli málaflokka, en ekki komi til hækkunar útgjalda. Magnús Gunnarsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn segir vekja athygli að verið sé að reka bæjarsjóð með tapi, sé ekki tekið tillit til fjármagnsliða. "Tapið er 3-400 milljónir. Auðvitað er sveitarfélagið í töluverðum vanda." Þá segir Magnús að gengisþróunin snarbæti stöðuna, því 90 prósent af skuldum sé í erlendum gjaldmiðlum. Það sé því lækkandi gengi dalsins sem geri það að verkum að skuldir virðast minnka, en ekki að það sé verið að borga skuldir niður. Frá árinu 1998 til 2001 höfðu skuldir sem hlutfall af skatttekjum hækkað úr því að vera tæp 183 prósent í rúm 193 prósent.Þrátt fyrir að skuldir hafi aukist frá 1998 úr rúmum 7.5 milljarði í tæpar níu milljarða 2003, lækkuðu skuldir sem hlutfall af skatttekjum árið 2002 og aftur 2003.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×