Innlent

Fleiri í brýnni þörf fyrir jólin

Þörf bágstaddra fyrir aðstoð nú fyrir jólin virðist vera meiri heldur en nokkru sinni fyrr. Þeir virðast nú fleiri heldur en áður og aldurshópurinn breiðari. Þá hefur öryrkjum í yngri aldurshópunum fjölgað áberandi, segir Ragnhildur Guðmundsdóttir formaður Mæðrastryksnefndar Reykjavíkur. Mæðrastyrksnefnd byrjar að úthluta matvælum og fleiru fyrir þurfandi fólk í dag. "Það hefur verið mjög mikið hringt og spurt," sagði Ragnhildur. "Við reiknum með að það séu hópar af fólki sem þurfa aðstoð fyrir þessi jól. Tilfinningin segir okkur að það séu fleiri nú heldur en fyrir síðustu jól. Sé tekið mið af haustinu, þá var mikil aukning hjá okkur miðað við sama tíma í fyrra. Það virðist svo sem neyðin sé útbreiddari nú heldur en áður," sagði Ragnhildur enn fremur. "Við erum að sjá breiðari aldurshópa. Hingað kemur fólk allt niður í 18 ára og upp úr. Ungum öryrkjum hefur fjölgað mikið." Ragnhildur sagði að Mæðarstyrksnefnd væri vel undir jólaúthlutun búin. Hún hefði notið mikillar velvildar einstaklinga og fyrirtækja með alla aðdrætti og væri nefndarfólk afar þakklátt fyrir það, því mikilvægt væri að unnt væri að aðstoða sem flesta er á því þyrftu að halda fyrir jólin. Ásgerður Jóna Flosadóttir hjá Fjölskylduhjálp Íslands sagði að margir hefðu hringt og spurst fyrir um aðstoð fyrir hátíðarnar. Fjölskylduhjálpin hefur sína jólaúthlutun á þriðjudaginn eftir rétta viku. Valgerður Jóna sagði sívaxandi þörf fyrir aðstoð og hjá Fjölskylduhjálpinni væru nú um 460 fjölskyldur á skrá. Samantekt sýndi, að um 15.600 einstaklingar hefðu notið þar aðstoðar á einu ári. Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar sagði að flestir sem þangað kæmu væru öryrkjar og svo bágstaddir búsettir utan Reykjavíkur. Hjálparstarfið byrjaði að taka við umsóknum í gær og mun einnig gera það í dag. Afgreiðsla fer svo fram á fimmtudag og föstudag. Sama fyrirkomulag verður viðhaft í næstu viku. "Þeir sem eru á strípuðum launum og leigja á almennum vinnumarkaði eiga mjög erfitt," sagði Vilborg. "Öryrkjar sem leigja á almennum markaði og búa einir eru einnig með þeim verst settu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×