Innlent

Spá fyrir um jarðskjálfta

Heita vatnið gæti gefið vísbendingar um yfirvofandi jarðskjálfta. Rannsóknir vísindamanna við norræna eldfjallasetrið benda til þess að efnainnihald heits vatns úr borholum breytist áður en jarðskjálftar ríða yfir. Frá þessu er greint í grein, sem birtist í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Geology. Hópur íslenskra og erlendra vísindamanna við norræna eldfjallasetrið fylgdust með efnainnihaldi heits vatns sem dælt var upp af fimmtán hundruð metra dýpi við Húsavík. Í ljós kom að efnajafnvægið í vatninu breyttist nokkrum vikum áður en skjálfti reið þar yfir. Tíu vikum fyrir skjálfta sem varð í september árið 2002 jókst magn króms og járns í vatninu stórlega, fimm vikum síðar jókst magn mangans, hálfum mánuði fyrir skjálftann mældist mikið sink í vatninu og viku fyrr mikill kopar. Þessar niðurstöður gætu gefið vísindamönnum kost á að spá fyrir um og vara við jarðskjálftum mun betur en nú er. Fram til þessa hafa vísindamenn hingað til getað sagt miklar líkur á skjálfta innan áratugs, og svo hafa þeir getað varað við með nokkurra mínútna fyrirvara. En reynist heita vatnið gefa áreiðanlegar vísbendingar um skjálfta, gæti þetta gjörbreyst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×