Innlent

Voru læknamistök náttúrulögmál?

Kvartanir vegna læknamistaka bárust landlæknisembættinu nánast aldrei þegar Ólafur Ólafsson tók við embættinu. Hann segir fólk á þeim tíma hafa sætt sig við það, eins og hvert annað náttúrulögmál, að læknar gerðu mistök. Þetta er meðal þess sem Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, greinir frá í nýútkominni bók sinni, Úr handraða Ólafs landlæknis. Þetta eru stuttar sögur, svonefndar vinjettur, sem gefnar voru út í tilefni sjötíu og fimm ára afmælis Ólafs. Bókin kom út fyrir mánuði en var seld í áskrift til um tvö þúsund manna, þannig að salan er strax orðin góð. Ólafur dregur uppúr viskubrunni sínum og viðrar álit sitt á heilbrigðiskerfinu hér heima og erlendis, svo dæmi séu nefnd. Hann segir að kvartanir vegna læknamistaka hafi verið fátíðar fyrsta ár sitt í starfi. Svo fór þeim fjölgandi. Ólafur segir að það geti verið vegna þess að þegar einhver kom og kvartaði við hann þá afhenti hann þeim bara sjúkraskrána. Sumir hafa samt viljað meina að það hafi ekki verið lögheimilt. Seinna komu svo stjórnsýslulögin um þetta. Orðatiltækið „allt svo“ er tengt Ólafi - allt svo, órofaböndum. Spurður hvers vegna segir hann skýringuna líklega liggja í því að hann hafi lengi verið í Stokkhólmi og Svíar temji sér slíkt orðalag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×