Innlent

Ráðstöfunartekjur aukast verulega

Ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna í landinu munu aukast verulega að mati forsætis- og fjármálaráðuneyta þegar skattalækkun ríkisstjórnarinnar tekur gildi fram til 2007. Heildaráhrifin leiða til 4,5 prósenta hækkunar ráðstöfunartekna allra heimila í landinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Áhrif aðgerðanna eru mismunandi eftir fjölskyldugerðum og tekjum. Ráðstöfunartekjur hjóna með eitt til tvö börn hækka um 6-8 prósent í kjölfar lækkunar tekjuskatts og hækkunar barnabóta. Ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra hækka heldur meira eða um 6-10 prósent. Sem dæmi má nefna að ráðstöfunartekjur einstæðs foreldris með eitt barn undir sjö ára aldri og 125 þúsund krónur í tekjur á mánuði hækka um 12.500 krónur á mánuði. Þetta er 10 prósenta hækkun. Ráðstöfunartekjur hjóna með alls 300 þúsund krónur í tekjur á mánuði og tvö börn, annað yngra en sjö ára, hækka um 23.500 krónur eða 9,5 prósent. Rétt er þó að hafa í huga að kaupmáttaraukningu er hægt að skoða með þrennum hætti, kaupmætti kjarasamninga, kaupmætti launabreytinga og kaupmætti ráðstöfunartekna. Kaupmáttur ráðstöfunartekna sýnir langmestu hækkunina. Forsvarsmenn launþegasamtakanna í landinu hafa lýst áhyggjum sínum af því að verið sé að kaupa auknar ráðstöfunartekjur á kostnað kaupmáttar kjarasamninga og velferðarkerfisins. Verðbólga aukist umfram áætlanir og kjarasamningar komist í uppnám á næsta ári. Búist er við að útreikningar hagfræðinga launþegasamtaka á kaupmáttaraukningu skattalækkananna liggi fyrir á næstu dögum. Gert er ráð fyrir að ný verðbólguspá Seðlabankans verði birt á morgun og er jafnvel búist við að tilkynnt verði um hækkun stýrivaxta við það tækifæri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×