Innlent

35 manns missa vinnuna

Síðasti starfsdagur Kísiliðjunnar við Mývatn er í dag. 35 manns missa vinnuna og að sögn fréttamanns Bylgjunnar sem er fyrir norðan er hljóðið í fólki þungt. Það er að þrífa og ganga frá enda rann síðasti kísilgúrpokinn af færibandinu í gær og í kjölfarið slökkt á öllum ofnum, tækjum og tólum. Það er auvitað sárt að missa vinnuna, hvað þá þegar aðra vinnu er ekki að fá í byggðarlaginu. Af um fjörutíu starfsmönnum Kísiliðjunnar verða 35 atvinnulausir í lok dagsins. Ef það er heimfært á Reykjavík þýðir það að 17-18.000 borgarbúar yrðu atvinnulausir. Þetta er því grafalvarleg staða, bæði fyrir byggðalagið og fólkið sjálft. Flestir hinna yngri starfsmanna verksmiðjunnar búast við að fá vinnu á Reyðafirði en vilja þó búa áfram á svæðinu. Miklar vonir eru bundnar við að eitthvað komi í staðinn fyrir Kísiliðjuna, t.a.m. kísilduftverksmiðja, þótt ekkert sé fastákveðið með það. Í dag er glaðst yfir því að tvíréttað er í mötuneytinu, enda matseljan að reyna að tæma frystinn. Helgarferð til Dyflinnar er líka á dagskránni í boði Kísiliðjunnar og vilja þeir líkja því við áfallahjálp. Eftir heimkomuna má búst við því að starfsmennirnir fari að hugsa sér til hreyfings, ef atvinnuhorfur á svæðinu batna ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×