Erlent

Palestínumenn byrjaðir að syrgja

Mikil ringlureið er meðal Palestínumanna sem vita vart hvort Jasser Arafat, leiðtogi Palestínu, er lífs eða liðinn. Egyptar ætla að halda jarðarför Arafats og almenningur í Palestínu syrgir hann þegar, og þó er fullyrt að hann sé enn á lífi og í dái í París. Mjög er nú þrýst á helstu leiðtoga heimastjórnar Palestínu heimafyrir um að eyða þeirri óvissu sem ríkir um ástand Arafats en frá því í síðustu viku hafa bæði borist fréttir um andlát hans og um að hann liggi alvarlega veikur á sjúkrahúsi. Arafat, sem er 75 ára, var fluttur frá Ramallah á Vesturbakkanum á hersjúkrahús í París, 29. október síðastliðinn en læknar staðfestu í gær að blætt hefði inn á heilann í honum og hann væri í djúpu dái. Ennfremur sögðu þeir að hann ætti í mesta lagi nokkrar klukkustundir eftir ólifaðar. Í morgun var haft eftir æðstaklerki múslima á heimastjórnarsvæðunum, sem kominn er til Parísar til að vitja Arafats, að hann væri enn á lífi. Fregnir herma að klerkurinn muni leggja blessun sína yfir það að öndunarvél sem Arafat er tengdur verði tekin úr sambandi. Nabil Shaath, utanríkisráðherra heimastjórnar Palestínu, vísaði á bug öllum kjaftasögum um andlát leiðtogans í gær. Heimildir innan heimastjórnarinnar sögðu í morgun að tilkynning um andlát hans kynni að verða send út í dag og að þegar væri farið að undirbúa útför hans í Kaíró í Egyptalandi og greftrun hans við höfuðstöðvar hans í Ramallah. Arafat hefur verið leiðtogi Palestínu í meira en fjóra áratugi en helsti draumur hans hefur verið að stofna sjálfstætt ríki. Óttast margir að mikil ólga og átök verði meðal Palestínumanna við fráfall hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×