Erlent

Kerry og Edwards í stuði

John Kerry og John Edwards virðast komnir í sóknarham nú á lokaspretti kosningabaráttunnar í Bandaríkjunum og nota hvert tækifæri til að sverta orðspor keppinautanna. Týndir hlutir, hvort sem það eru sprengiefni í Írak eða atkvæði í Flórída, setja sitt mark á kosningabaráttuna í Bandaríkjunum þessa dagana. Nú hefur komið í ljós að þau tæplega fjögur hundruð tonn af sprengiefni sem saknað er úr vopnageymslum í Írak voru þar þegar bandarískir hermenn náðu Bagdad á sitt vald. Nýtt myndefni sem birt var í dag sannar það svo ekki verður um villst. Þetta þykir vatn á myllu Kerrys sem hefur notað þetta málefni til að hamra á því að Bush sé ekki starfinu vaxinn og hafi ekki verið efst í huga að koma í veg fyrir útbreiðslu hættulegra vopna með innrásinni í Írak. Á meðan beinir varaforsetaefni Kerrys, John Edward, spjótum sínum að varaforseta Bush, Dick Cheney. Bandaríska Alríkislögreglan kannar nú hvernig á því stendur að fyrirtækið Halliburton hefur ítrekað verið ívilnað með alls konar ríkissamningum, meðal annars hvað varðar uppbyggingu í Írak. Cheney, var sem kunnugt er, framkvæmdastjóri fyrirtækisins og sat lengi í stjórn. Cheney segist ekkert hafa lengur með fyrirtækið að gera og talsmaður Halliburton segir að þessi rannsókn sé aðeins kosningaáróður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×