Erlent

Arafat fluttur á sjúkrahús í París

Ákveðið var í gærkvöldi að fljúga með Jasser Arafat, forseti heimastjórnar Palestínu, til Parísar. Þar mun Arafat, sem hefur verið mikið veikur undanfarið, leggjast inn á sjúkrahús til læknismeðferðar. Arafat var það veikur í gær að hann gat ekki staðið og hélt mat sínum ekki niðri. Mestan hluta dagsins svaf hann meðan læknar ræddu hvað væri best að gera. Arafat hneig niður á miðvikudagskvöld. Þá ældi hann eftir matinn og féll í yfirlið, tíu mínútur liðu áður en hann náði meðvitund á ný. Þegar Arafat yfirgaf höfuðstöðvar sínar í gær var það í fyrsta skipti sem hann gerði það í tvö og hálft ár. Hann hefur verið innilokaður í höfuðstöðvum sínum frá því Ísraelar gerðu umsátur um höfuðstöðvarnar í maí 2002. Hann hefur neitað að yfirgefa Ramallah síðustu tvö árin vegna þess að Ísraelar hafa ekki verið reiðubúnir að lýsa því yfir að hann fengi að snúa aftur. Það breyttist eftir símafund forsætisráðherra Ísraels og Palestínu, Ariel Sharon og Ahmed Qureia.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×