Erlent

Pólitískt mannrán eða fjárkúgun?

Ekki er enn vitað hvort mannránið á þrem starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í morgun sé svipað þeim sem átt hafa sér stað í Írak eða hvort einfaldlega sé um fjárkúgun að ræða. Sé hið fyrrnefnda ástæðan og tilgangurinn pólitískur, megi fastlega gera ráð fyrir því að margar hjálparstofnanir hverfi burt frá Afganistan, segir Helen Ólafsdóttir, starfsmaður íslensku friðargæslunnar í Kabúl. Það gæti haft afar slæmar afleiðingar í för með sér. Sjö byssumenn rændu bíl starfsmannanna þriggja og námu þá á brott. Byssumennirnir sjö voru að sögn sjónarvotta klæddir í hermannabúninga og því vissi bílstjóri bíls Sameinuðu þjóðanna ekki betur en að um friðargæsluliða væri að ræða. Fyrr en varði höfðu mennirnir þó barið bílstjórann og skipað starfsmönnunum þrem, sem í bílnum voru, upp í jeppabifreið, sem keyrði svo snarlega á brott. Bifreiðin fannst mannlaus skömmu síðar. Helen Ólafsdóttir segir þetta í fyrsta sinn sem mannrán eigi sér stað í Kabúl frá því Sameinuðu þjóðirnar komu þar til starfa. Atvikið eigi því eftir að breyta miklu í starfseminni. Að hennar sögn er um að ræða þrjár konur frá Írlandi, Kosovo og Filippseyjum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×