Erlent

Framkvæmdastjórnin í uppnámi

Skipan næstu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er í uppnámi eftir að Jose Manuel Barroso dró til baka tillögu sína um skipun stjórnarinnar Þá var ljóst að þingmenn myndu ekki veita framkvæmdastjórninni brautargengi vegna andstöðu þeirra við ítalska frambjóðandann sem fara á með dómsmál í framkvæmdastjórninni. Þing Evrópusambandsins verður að samþykkja tilnefningar í framkvæmdastjórnina til að þær taki gildi. Ljóst þótti að þingið myndi ekki samþykkja tilnefningu Rocco Buttiglione í dómsmálin og þar sem aðeins er hægt að greiða atkvæði um framkvæmdastjórnina í heild sinni en ekki einstaka meðlimi hennar var ljóst að tillaga Barroso yrði felld ef hún yrði borin undir atkvæði í gær. Ef Barroso hefði látið kjósa um tillögu sína og henni verið hafnað hefði það verið í fyrsta sinn sem þingið hafnaði uppstillingu í stjórn Evrópusambandsins. Það sem veldur andstöðu þingmanna við Buttiglione eru niðrandi ummæli hans um samkynhneigða einstaklinga og einstæðar mæður. Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum reyndi Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, að fá Buttiglione til að draga sig í hlé til að binda enda á deiluna um skipun framkvæmdastjórnarinnar. Því mun Buttiglione hafa hafnað. Berlusconi er líka sagður hafa rætt við samherja sína í ríkisstjórn um að tilnefna annan einstakling í stað Buttiglione. Franco Frattini utanríkisráðherra sagði hins vegar að Buttiglione væri frambjóðandi Ítalíu og að Berlusconi myndi ræða við aðra þjóðarleiðtoga um lausn málsins. Barroso sagðist í gær vonast til að leysa deiluna á næstu vikum og leggja fram nýja tillögu að skipan framkvæmdastjórnarinnar. Þangað til það gerist verður fráfarandi framkvæmdastjórn áfram við völd en kjörtímabil hennar rennur út um mánaðamót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×