Erlent

Prodi segist halda áfram

MYND/Reuters
Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur samþykkt að gegna starfinu áfram „að svo stöddu“, eins og hann orðaði það, en Jose Manuel Barroso, væntanlegur formaður framkvæmdastjórnarinnar, dró til baka tillögu sína um skipun 25 manna stjórnar sambandsins fyrr í morgun. Jan Pieter Balkenende, forsætisráðherra Hollands sem er núna í forsæti ESB, hafði meðal annarra samband við Prodi og leitaðist eftir því að hann gegndi embættinu áfram. Barroso segist munu leggja fram tillögu um nýja skipan á næstu vikum. Mikil andstaða þingmanna var frá öllum löndum og úr öllum fylkingum við tillögu Barroso og stefndi í að hún yrði felld vegna mikilla deilna og nánast upplausnar á Evrópuþinginu í gær um skipan Ítalans Roccos Buttigliones í embætti innanríkis- og dómsmálastjóra sambandsins. Rétt áður en átti að greiða atkvæði um skipanina í morgun dró Barroso tillöguna til baka. Ráðgert var að hann tæki við sem forseti framkvæmdastjórnarinnar 1. nóvember næstkomandi. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×