Erlent

Fyrsti djöfladýrkandinn

24 ára gamall djöfladýrkandi hefur verið skráður í breska sjóherinn. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur dýrkandi fær þar inngöngu. Hann heitir Chris Cranmer og er tæknifræðingur. Mun hann starfa um borð í herskipinu HMS Cumberland sem er með bækistöðvar sínar í höfn borgarinnar Plymouth. "Við veitum öllum sama tækifæri og stöndum ekki í vegi fyrir því að menn iðki sína trú," sagði talsmaður hersins. Cranmer sagðist í samtali við Sunday Telegraph hafa tekið djöflatrú fyrir níu árum þegar hann fór að lesa biblíu djöfladýrkenda. Sá hann strax að þessi trúarbrögð ættu vel við sig. Samkvæmt þeirra biblíu, sem var samin af stofnanda trúarbragðanna, Anton Szandor LaVey, þurfa djöfladýrkendur að fylgja níu boðorðum. Meðal annars eiga þeir að láta allt eftir sér í stað þess að hafa hemil á sér. Eiga þeir til að mynda alltaf að hefna sín í stað þess að bjóða hina kinnina. Í biblíu þeirra segir að djöfladýrkendur skuli taka upp á arma sína þær svokölluðu syndir sem þeir segja að leiði í raun og veru til bæði andlegrar og líkamlegrar ánægju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×