Erlent

Versta áfall Japana í nær áratug

Mannskæðasta óveður sem gengið hefur yfir Japan í nær tvo áratugi kostaði í það minnsta 55 manns lífið þegar fellibylurinn Tokage gekk yfir landið í fyrradag og fyrrinótt. Rúmlega tuttugu manns til viðbótar er saknað og því getur tala látinna enn hækkað. "Líklegt er að tala látinna hækki eftir því sem við fáum betri heildarsýn," sagði Kojun Chibana, talsmaður japanska ríkislögreglustjóraembættisins í gær. Þá var mestur máttur úr óveðrinu og það gengið á haf út. Í Muroto stóð lítið eftir af heimilum annað en burðarveggir eftir að háar öldur gengu á land, ruddu flóðavörnum frá og steyptust yfir léttbyggð hús við sjávarsíðuna. Stór landsvæði á sunnan- og vestanverðum eyjum Japans voru enn á kafi í gær, skólum var lokað og samgöngur, hvort tveggja loftleiðina og landleiðina voru í lamasessi. Talið er að rúmlega 23 þúsund heimili hafi orðið fyrir skemmdum af völdum veðursins, hundruð þeirra eru ónýt. Koma þurfti þrettán þúsund manns fyrir í bráðabirgðaskýlum. Óvenju margir fellibyljir hafa gengið yfir Japan síðustu mánuði. Það sem af er árinu hafa um 220 manns látist af völdum fellibylja og þarf að fara rúm tuttugu ár aftur í tímann til að finna dæmi um að fleiri hafi látist af völdum óveðra á einu ári. Tokage (sem þýðir eðla á japönsku) var áttundi fellibylurinn til að ganga yfir Japan í ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×