Erlent

Hvöttu til friðsamlegrar andstöðu

Klerkar í Falluja hvöttu landsmenn í gær til friðsamlegrar andstöðu gegn Bandaríkjamönnum um allt Írak ef þeir reyndu að brjóta andspyrnu gegn þeim á bak aftur. Yfirlýsing klerkanna var lesin upp í moskum víða í Írak. Bandarískar herflugvélar vörpuðu sprengjum á Falluja í gær, degi eftir að ráðamenn í bænum drógu sig út úr friðarviðræðum við írösku bráðabirgðastjórnina. Þær viðræður strönduðu á kröfu stjórnvalda um að bæjarbúar handsömuðu jórdanska hryðjuverkamanninn Abu Musab al-Zarqawi og framseldu hann í hendur stjórnvöldum. Að sögn vitna í Falluja handtóku bandarískir hermenn helsta samningamann bæjarbúa, íslamska klerkinn Khaled al-Jumeili, þegar hann yfirgaf mosku í nágrenni Falluja eftir bænahald. Hinn helgi mánuður múslima, Ramadan, hófst í gær. Í fyrra hófu íraskir uppreisnarmenn miklar árásir um það leyti en undanfarið hafa íraskar og bandarískar hersveitir ráðist í herferð gegn uppreisnarmönnum til að minnka líkur á slíkum árásum. Tíu manns létust þegar bílsprengja sprakk nærri lögreglustöð í Bagdad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×